Lögleysa í Gjástykki?

Iðnaðarráðherra fyrrverandi, Jón Sigurðsson, veitti Landsvirkjun rannsóknaleyfi í Gjástykki tveim dögum fyrir kosningar og aðeins tveim dögum eftir að umsóknin barst ráðuneytinu. Lögmæti þessarar afgreiðslu sýnist mörgum hæpið þar sem í lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu segir: „Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar Orkustofnunar og umhverfisráðuneytis“. Í þessu tilfelli virðist það ekki hafa verið gert.

Af þessum sökum fóru Landvernd og SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, þess á leit við umhverfisnefnd og iðnaðarnefnd Alþingis að þær rannsaki leyfisveitinguna. Samtökin ætlast einnig til þess að iðnaðarráðherra afturkalli leyfið ef rannsóknin staðfestir ágalla á leyfisveitingunni.

Landsvirkjun og iðnaðarráðuneytið halda því fram að útgáfa leyfisins þann 10. maí 2007 hafi verið afgreiðsla á umsókn Landsvirkjunar frá því í október 2004 og benda á að leitað hafi verið umsagna um hana. Sú skýring verður að teljast afar langsótt þar sem leyfið sem veitt var 10. maí 2007 veitir víðtækari heimildir en sótt var um árið 2004. Leyfið veitir heimildir sem fyrst var sótt um 8. maí 2007.

UMSÓKN LANDSVIRKJUNAR 2004
Í umsókninni frá árinu 2004 segir: „Markmið Landsvirkjunar er að kanna með yfirborðsrannsóknum umfang og grunneiginleika jarðhitasvæðisins ... Eingöngu er um að ræða mælingar á yfirborði ... án framkvæmda er valdið gætu raski.“ Í þessari umsókn var ekki sótt um leyfi til þess að meta magn jarðhita eða afkastagetu svæðisins með rannsóknaborunum. Hinsvegar kemur fram í umsókninni að ef niðurstöður yfirborðsrannsókna verði jákvæðar muni Landsvirkjun; „síðar óska eftir sérstöku leyfi til frekari rannsókna, sem þá gætu m.a. falið í sér boranir.“

Um svipað leyti sóttu fleiri aðilar um rannsóknaleyfi í Gjástykki og úr varð að ekkert leyfi var veitt af hálfu iðnaðarráðuneytisins. Landsvirkjun gat þó ráðist í yfirborðsrannsóknir með leyfi landeiganda. Í september 2006 sendir Landsvirkun ráðuneytinu ítrekun á umsókn sinni frá 2004 og nefnir aftur að umsókn um rannsóknaboranir verði send síðar: „Á fyrri hluta árs 2007 stefna Þeistareykir ehf. og Landsvirkjun að því að sækja um ítarlegra rannsóknarleyfi á Gjástykkissvæðinu sem meðal annars felur í sér rannsóknarboranir eftir að yfirborðsrannsóknum lýkur....“

UMSAGNIR 2004
Stofnanir umhverfisráðuneytisins og Orkustofnun fjölluðu um umsókn Landsvirkjunar til fyrirhugaðra yfirborðsrannsókna. Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands segir m.a.: „Fram kemur í umsókn Landsvirkjunar að eingöngu sé um yfirborðsrannsóknir að ræða á þessu stigi sem hafi óverulegt rask í för með sér.“ Í umsögn Orkustofnunar segir m.a.: „Rannsóknir á þessum áfanga eru einvörðungu fyrirhugaðar sem yfirborðsrannsóknir og er því ekki að vænta neins teljanlega aukins usla eða rasks ... Viðeigandi rannsóknaráætlun er lögð fram í umsókninni, þar sem gert er einvörðungu ráð fyrir yfirborðsrannsóknum ... Jarðrask á að vera ekkert, eða hverfandi, ...“ Í umsögn Umhverfisstofnunar segir einnig: „Eftirfarandi yfirborðsrannsóknir verða framkvæmdar á þessu stigi: ...“

Eins og eðlilegt er og glögglega má hér sjá þá takmarkast hinar lögboðnu umsagnir við þær yfirborðsrannsóknir sem sótt var um af hálfu Landsvirkjunar.

MY UMSÓKN 8. MAÍ 2007
Fjórum dögum fyrir kosningar sendi Landsvirkjun iðnaðarráðuneytinu svo umsóknina sem minnst hafði verið á skriflega, bæði í umsókn frá árinu 2004 og aftur í ítrekuninni árið 2006. Í nýju umsókninni var sótt um leyfi til rannsókna á afkastagetu svæðisins. Til slíkra rannsókna þarf jarðboranir, stór borplön og eftir atvikum vegagerð. Ekki er þá lengur um yfirborðsrannsóknir að ræða eins og sótt var um leyfi til með umsókninni árið 2004. Í nýju umsókninni segir: „... stórauka þarf rannsóknir á Gjástykkissvæðinu með borun dýpri og víðari hola til að sannreyna niðurstöður yfirborðsrannsókna um tilvist jarðhitakerfisins og rannsaka eiginleika þess og afköst.“. Þessar óskir Landsvirkjunar um leyfi til rannsókna sem fela í sér yfirborðssrask eru þannig fyrst settar fram í umsókn þeirra þann 8. maí.

Þrátt fyrir að Orkustofnun og stofnanir umhverfisráðuneytisins hefðu tekið skýrt fram, árið 2004, að umsagnir þeirra væru aðeins um yfirborðsrannsóknir í Gjástykki þá leitaði iðnaðarráðuneytið ekki eftir nýjum umsögnum hjá þeim vegna þessarar nýju umsóknar. Þeim rannsóknum sem sótt var um fylgir umtalsvert umhverfisrask sem lögboðnir umsagnaraðilar fengu ekki færi á að tjá sig um áður en leyfið var gefið út. Þetta virðist brjóta í bága við 4. tl. 5. gr. laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, en þar segir; „Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar Orkustofnunar og umhverfisráðuneytis“. Lögmæti útgáfunnar er því ekki hafið yfir vafa og raunar virðist blasa við að ákvæði laganna hafi ekki verið uppfyllt af hálfu iðnaðarráðuneytisins

Bergur Sigurðsson.

Þessi pistill birtist í Morgunblaðinu 11.9.2007.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband