Satt og logið um "græna" málminn

Því hefur lengi verið haldið fram af fjölmörgum aðilum að álframleiðsla á Íslandi sé af hinu góða í hnattrænu samhengi. Til rökstuðnings er sagt að annars yrði álið framleitt í löndum á borð við Kína þar sem kol eru notuð sem orkugjafar. Þessar fullyrðingar eru í besta falli hálfsannleikur en líklegra er að um vanþekkingu sé að ræða. Ítrekaðar fullyrðingar í þessum efnum hafa valdið útbreiddum misskilningi á meðal þjóðarinnar þess efnis að álframleiðsla á Íslandi sé jákvæð í hnattrænu samhengi.

Staðreyndin er sú að víða í heiminum er að finna báxítnámur, óvirkjað vatnsafl og hráefni í rafskaut á svipuðum slóðum. Til þess að framleiða 1 tonn af áli þarf 2 tonn af áloxíði og 0,5 tonn af rafskautum sem framleidd eru úr kolum og olíuefnum. Í hnattrænu samhengi er augljóslega vænlegra að frumframleiðsla á áli fari fram í heimshlutum þar sem hráefni og vatnsafl er til staðar og þannig komið í veg fyrir óþarfa flutning hráefna. Ekki er hér verið að leggja blessun yfir staðbundið og svæðisbundið rask sem aukin álframleiðsla á þessum slóðum myndi hafa heldur er einungis verið að horfa til hnattrænna áhrifa. Það má því setja dæmið upp á þann veg að framlag Íslands til þess að taka á þeirri vá sem mannkynið stendur frammi fyrir séu óþarfir flutningar hráefna frá löndum á borð við Jamaica, Indland og Ástralíu. Þeim óþörfu flutningum fylgir óhjákvæmilega óþörf losun gróðurhúsalofttegunda sem er „framlag“ Íslands til „lausnar“ þeim vanda sem gróðurhúsaáhrifin eru.

Því hefur verið haldið fram að valkosturinn við „íslenskt ál“ sé ál frá Kína þar sem kol eru notuð til raforkuframleiðslu. Þetta er afar langsótt röksemdafærsla. Það er rétt að í Kína eru notuð kol sem orkugjafi fyrir álver, en framleiðsla Kínverja fer, eftir því sem best verður að komist, ekki á sömu markaði og ál frá Íslandi. Kínverjar framleiða fyrir sinn heimamarkað og nota álið í fullunnar vörur af ýmsu tagi sem eftir atvikum eru fluttar til vesturlanda. Engin augljós tengsl virðast því vera á milli álframleiðslunnar á Íslandi og í Kína. Nærtækara væri að benda á valkosti í Mið- og Suður Ameríku, en sá samanburður er óhagstæður þeim sem halda fram ágæti framleiðslunnar á Íslandi. Þess má geta að skv. upplýsingum frá International Aluminum Institute framleiðir sá heimshluti umtalsvert magn að áli og orkugjafinn er fyrst og fremst vatnsafl. En hvers vegna er ál yfir höfuð framleitt á Íslandi þegar til eru lönd sem eiga vatnsafl, báxítnámur og ódýrt vinnuafl? Líklega er það ódýra orkan sem Ísland hefur að bjóða sem ríður baggamuninn. Alain Belda, forstjóri Alcoa, hefur t.d. sagt að orkuverð til stóriðju á Íslandi sé um helmingur þess orkuverðs sem Alcoa samdi um í tilteknu verkefni í Brasilíu.

ÍSLENSKA ÁKVÆÐIÐ
Með íslenska ákvæðinu er ríkjum með lítil hagkerfi og hreina orkugjafa gefin kostur á að ráðast í verkefni sem valda mikilli losun gróðurhúsalofttegunda án þess að losunin teljist með almennri losun í skuldbindingum Kyoto. Ein af megin forsendum ákvæðisins er að með því að nota hreina orku sé hnattrænt dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda. Með vísan í óþarfa flutninga sem fylgja álframleiðslu á Íslandi er ljóst að hún veldur meiri losun gróðurhúsalofttegunda en álframleiðsla í löndum sem geta numið báxít og vatnsafl auk olíu og kola til rafskautagerðar. Að nota íslenska ákvæðið í þágu áliðju á Íslandi er því óhagstætt í hnattrænu samhengi og uppfyllir ekki þá megin forsendu sem ákvæðið byggir á.

Ef ákvæðið væri hinsvegar nýtt í verkefni sem myndu raunverulega draga úr heildar losun gróðurhúsalofttegunda væru verkefnin jákvæð í hnattrænu samhengi. Sem dæmi um slík verkefni mætti t.d. nefna verkefni þar sem hrein orka væri notuð til þess að kæla tölvuver. Í því tilfelli eru „hráefnin“ tölvutæk gögn sem flutt eru á milli heimshluta án þess að því fylgi losun gróðurhúsalofttegunda. Fyrir þá starfsemi þarf heldur ekki háspennulínur því tölvuverin mætti staðsetja í sjálfum virkjunarhúsunum eða í næsta nágrenni við þau.

AÐ LOKUM
Rétt er að halda því til haga að til þess að endurvinna ál þarf aðeins 5% af orkunni sem þarf til frumframleiðslunnar. Um 20% af heimsframleiðslunni fara í umbúðir og má ætla að stórum hluta þeirra sé hent eftir notkun. Þannig er t.d. 800.000 tonnum af áldósum fargað árlega í Bandaríkjunum. Með aukinni endurvinnslu mætti því draga stórlega úr hnattrænum umhverfisáhrifum álframleiðslunnar.

Líklega verða þessi skrif mín ekki til þess að snúa þeim sem hvað harðast beita sér fyrir uppbyggingu áliðnaðar á Íslandi. Ég vonast þó til þess að skrifin verði til þess að sem flestir hætti að fara með öfugmæli um hnattrænt ágæti frumframleiðslu þessa „græna málms“ á Íslandi.

Bergur Sigurðsson,

Þessi pistill birtist í Morgunblaðinu 12.3.2007.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Að þessu sögðu, þarft þú að útskýra fyrir mér af hverju landbúnaðar- og fjármálaráðherra Vinstri Grænna stendur að því að kippa fótunum undan ylræktinni, grænu stóriðjunni?

Gestur Guðjónsson, 21.4.2009 kl. 00:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband