Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Batnandi stjórnsýsla, batamerki á samfélagi

Með úrskurði sínum stígur umhverfisráðherra stórt skref í átt bættrar stjórnsýslu á sviði umhverfismála. Ummæli Tryggva Þórs Herbertssonar i fréttum Stöðvar 2 í gærkveldi minna okkur á mikilvægi þess að halda Sjálfstæðisflokki áfram frá völdum. Tryggvi telur það vera skemmdarverk að meta umhverfisáhrif með fullnægjandi hætti áður en ákvörðun er tekin. Tryggvi vill fremur að stjónvöld haldi áfram að taka óupplýstar ákvarðanir og fórna náttúruverðmætum óskoðuðum. Hafi hrunið eitthvað kennt okkur er það að í upphafi skyldi endirinn skoða. Úrskurður umhverfisráðherra stuðlar að því að það verði gert og markar sem slíkur tímamót í náttúruverndarmálum á Íslandi.

[viðbót:] Þá er athyglivert að heyra í Ragnari Guðmundssyni, forstjóra Norðuráls, útvarpsfréttum RÚV nú kl. 10:00. Hann talar um að nú þurfi að "fara betur yfir málið og skoða það í heild sinni". Í umhverfismati fyrir álverið í Helguvík var sjónarmiðum þess efnis að málið skyldi skoðað í heild sinni komið á framfæri. Norðurál, og raunar aðrir aðstandendur verkefnisins, vörðust þá sem ljón og beittu sér mjög fyrir því að svo yrði ekki. Vildu ekkert við það kannast að þessar línur væru eitthvert aðalatriði fyrir álverið, og hvað þá að það þyrfti að afla álverinu orku.

 Norðuráli var mæta ljóst að heildstætt umhverfsimat væri dýrara en ónothæfa aðferðin (sem hingað til hefur verið notuð) en auk þess líklegra til þess að vekja athygli á náttúruspjöllum sem aðstandendur verkefnisins vilja sem minnst m tala. Líklega væri verkefnið betur á veg komið ef Ragnar &co hefðu strax í upphafi viljað skoða málið í heild sinni. 

 Læt hér fylgja grein mína úr Mogganum 22. september um þetta efni, ásamt mynd og uppfærslu til frekari skýringar.

 

Laumuleikur Landsnets

LANDSNET hóf fyrir nokkru mat á umhverfisáhrifum fyrir háspennulínur undir yfirskriftinni Suðvesturlínur en um er að ræða endurnýjun og verulega styrkingu á raforkuflutningum á Suðvesturlandi. Í aðdragandanum var því kerfisbundið haldið á lofti að afhendingaröryggi raforku á Reykjanesskaga væri ófullnægjandi og að úrbóta væri þörf hvort sem til kæmi álver í Helguvík eða ekki. Þessi málflutningur er afar hæpinn og í besta falli er þar um hálfsannleik að ræða. Enda kemur á daginn að línurnar sem kynntar eru í fyrr nefndri skýrslu eru sérhannaðar að þörfum stórs álvers en ekki þörfum almennings og smærri iðnaðar sem ekki þyrftu nándar nærri eins stórkarlaleg mannvirki og stefnt er að því að reisa.

Það er út af fyrir sig rétt að Suðurnesjalínan er fulllestuð, en ástæðan er sú að Reykjanesvirkjun framleiðir raforku fyrir álver Norðuráls á Grundartanga og álagið á línunum því frá Reykjanesi til austurs. Hófsöm uppbygging á orkufrekri starfsemi í sveitarfélögunum á Reykjanesskaganum væri því til þess fallin að draga úr álagi á línunni og bæta afhendingaröryggið. Tröllvaxnar framkvæmdir á borð við 360 þúsund tonna álver kalla hinsvegar á nýjar línur og mun öflugri en þær sem ella þyrfti til. Það væri heiðarlegra af aðstandendum verkefnisins að segja þessa hluti bara eins og þeir eru í stað þess að hanga eins og hundar á roði á hálfsannleik sniðnum að þörfum þeirra sem sjá sér hag í því að álver rísi í Helguvík.

Það sem verra er

Í téðri matsskýrslu er því miður ekki fjallað um þá orkuflutninga sem líklegastir eru til að valda alvarlegustu umhverfisspjöllunum. Þess í stað er einkum fjallað um þær línur sem munu liggja meira eða minna á þeim línuleiðum sem fyrir eru. Í matsskýrslunni er t.d. ekki fjallað um hvernig Landsnet hyggst tengja saman áformaðar virkjanir á Krýsuvíkursvæðinu, þ.e. Seltún, Austurengjahver, Trölladyngju og Sandfell. Þetta vekur furðu þeirra sem til þekkja þar sem Landsnet hefur kynnt lausleg áform sín þar að lútandi fyrir sveitarstjórnarmönnum á Suðurnesjum. Þau áform sem ekki er fjallað um í matsskýrslunni, fela í sér stórtæka vegagerð og gríðarlegt jarðrask í hjarta Reykjanesfólkvangs. [Sjá mynd hér að neðan] Áformin sem Landsnet kýs að fjalla ekki um í matsskýrslu sinni ganga út á að leggja jarðstreng úr Seltúni yfir í Trölladyngju en til þess þyrfti að fara yfir bæði Sveifluháls og Núpshlíðarháls, auk þess sem Móhálsadalur yrði þveraður. Jafnframt yrði farið með jarðstreng úr Sandfelli norður í Trölladyngju en þaðan kæmi háspennulína sem myndi tengja þessar virkjanir inn á nýja Suðurnesjalínu. Í matsskýrslu Landsnets er ekki að finna stafkrók um þessa orkuflutninga og því gefur umhverfismatið ekki fullnægjandi mynd af áformunum sem uppi eru og til þurfa að koma eigi verkefnið í heild sinni að ganga eftir.

Ráðherra ræður

Umhverfisráðherra hefur nú til meðferðar kæru Náttúruverndarsamtaka Íslands og Landverndar þar sem þess er m.a. krafist að fjallað verði með heildstæðum hætti um þá orkuflutninga sem til þurfa að koma fyrir álver í Helguvík. Orkuflutningarnir, tengivirkin og vegagerðin, sem einhverra hluta vegna hefur ekki ratað inn í skýrslu Landsnets, eru á viðkvæmari svæðum en þær framkvæmdir sem fyrirtækið kýs að fjalla um í afmarkaðri skýrslu sinni. Það er því brýnt að ráðherra verði við kæru samtakanna enda verður markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum ekki náð nema umhverfismatið varpi ljósi á umhverfisáhrifin í heild sinni. Það er kominn tími til að þjóðinni sé sagt satt og rétt frá. Lygavefir g[r]óðærisins hafa þegar kostað þjóðina allt of mikið og löngu mál að linni. Allt upp á borð, takk fyrir.

Byggt á pistli sem birtist í Morgunblaðinu, þriðjudaginn 22. september.

Leynilínur Landsnets

 

 


mbl.is Úrskurður umhverfisráðherra veldur mikilli óvissu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband