Orkuþörf stóriðjuáforma og biðlund skynseminnar

Flestum ætti að vera kunnugt að álfyrirtækin áforma umtalsverða uppbyggingu á suðvesturhorni landsins. Til þess að áætlanir þeirra geti gengið eftir þarf gríðarlegt viðbótarmagn af raforku. Áform um álver í Helguvík og stækkun í Straumsvík kalla á 8,2 TWst af raforku á ári en til viðmiðunar má benda á að heildar raforkunotkun á Íslandi í dag er um 8,6 TWst á ári. Þá er ótalin orkuþörf hugsanlegs álvers í Þorlákshöfn og rétt er að halda því til haga að einnig eru uppi áform um álver á Húsavík sem myndi þurfa um 3,8 TWst.

Orkuþörf stóriðjuáforma á suðvesturhorninu samsvarar fjórum nýjum vatnsaflsvirkjunum í Þjórsá, frá Búðarhálsi að Urriðafossi, og fimm til sjö nýjum jarðvarmavirkjunum á svæðinu frá Hengli og út á Reykjanes. Þrátt fyrir að rammaáætlun um verndun og nýtingu jarðvarma sé enn ólokið er horft til háhitasvæða eins og Seltúns og Austurengja í Krýsuvík, Trölladyngjusvæðisins austan Keilis. Einnig hefur verið horft til orkuöflunar í Brennisteinsfjöllum en nýlega lýsti Hitaveita Suðurnesja vilja sínum til þess að afturkalla umsókn sína um rannsóknarleyfi þar. Brennisteinsfjöllum er þó ekki borgið því Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun horfa enn til orkuöflunar þar. Það segir sig sjálft að þessi orkuöflun myndi valda stórkostlegu raski og fjölmargar háspennulínur myndu rísa á svæðum sem í dag eru án slíkra mannvirkja.

Djúpborun og skynsemi

Djúpborun hefur verið nokkuð til umræðu á undanförnum árum en með henni er ætlunin að bora dýpra niður á heitara vatn en gert er í dag. Nái djúpborunin fram að ganga gæti orkuvinnslugeta starfandi jarðvarmavirkjana e.t.v. fimmfaldast. Þannig mætti eftir atvikum auka orkuvinnslu starfandi jarðvarmavirkjana á suðvesturhorninu um 10 TWst eða svo án þess að virkja á nýjum svæðum með tilheyrandi umhverfisspjöllum, uppistöðulónum og nýjum línuleiðum. Til þess að svo megi verða þurfa orkufyrirtækin, álframleiðendur og yfirvöld til lands og sveita þó að gæta hófs og sýna biðlund.

Ef marka má ummæli Júlíusar Jónssonar, forstjóra Hitaveitu Suðurnesja, og Guðmundar Ó. Friðleifssonar, verkefnisstjóra djúpborunarverkefnisins, á fréttastöðinni NFS á síðasta ári má ætla að djúpborunarverkefnið kunni að skila af sér orku eftir 6 – 15 ár. Ótímabær uppbygging stóriðju mun hafa gríðarleg áhrif á samfélag, umhverfi og náttúru svæðisins um ókomin ár. Í því samhengi eru nokkur ár ekki langur tími en biðlund skynseminnar gæti bjargað mörgum af náttúruperlum landsmanna.

Bergur Sigurðsson.

Þessi pistill birtist í Morgunblaðinu 7. janúar 2007


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband