Smjör af hverju strái
13.4.2009 | 18:31
Það vekur undrun og furðu hvernig sjálfskipaðir talsmenn álvers í Helguvík halda kerfisbundið úti innistæðulausu vorkunarvæli um atvinnlíf á Suðurnesjum. Á Suðurnesjum, þar sem allt er í blóma, tækifærin blasa við og smjör drýpur af hverju strái. Lítið atvinnuleysi, þensla og mikill innflutningur á erlendu vinnuafli er einkennandi fyrir samfélagið í dag, jafnt á Suðurnesjum sem og á landinu í heild sinni. Til þess að sporna gegn því að þenslan sæki enn í sig veðrið valdi Seðlabankinn nýlega að lækka ekki stýrivexti.
Atvinnuleysi á Suðurnesjum er lítið, innan við 3%, en engu að síður er það meira en annarstaðar á landinu um þessar mundir. Það er þekkt staðreynd og viðurkennd að örri fólksfjölgun fylgir oft tímabundið atvinnuleysi sem skýrist af því að margir skipta um vinnu í kjölfar búferlaflutninga. Íbúum í Reykjanesbæ hefur fjölgað gríðarlega undanfarin misseri í kjölfar uppbygginar í Innri Njarðvík og eftir að varnarstöðinni var breytt í skólaþorp sem smám saman er að fyllast af íbúum. Ör fólksfjölgun á Suðurnesjum skýri væntanlega hluta af atvinnuleysinu en ekkert bendir hinsvegar til þess að um varanlegan vanda sé að ræða.
ÍGILDI ÞRIGGJA ÁLVERA
Í atvinnumálum á Suðurnesjum eru fjölmörg tækifæri framundan. Gert er ráð fyrir því að það þurfi um 200 manns til fjölbreyttra starfa þegar áformað hótel við Bláa lónið hefur verið byggt. Talverðan fjölda iðnaðarmanna þarf fyrst við bygginguna sjálfa. Nú stendur yfir umhverfismat fyrir kísilverksmiðju í Helguvík og þar er gert ráð fyrir u.þ.b. 90 störfum, auk starfa á byggingartima verksmiðjunnar. Þá er í gangi metnaðarfull uppbygging Keilis á Keflavíkurflugvelli og er áætlað að á næstu 3-5 árum muni þar verða til 4-5.000 manna háskólasamfélag. Ætla verður að það þurfi nokkur hundruð manns til þess að þjónusta þann byggðakjarna. Þá eru viðræður í gangi um netþjónabú á Keflavíkurflugvelli en þar yðru til 150 störf eða svo. Á undanförnum árum hafa orðið til 60-70 ný störf á ári í tengslum við flugþjónustuna á Keflavíkurflugvelli. Áætlanir gera ráð fyrir að sú þróun haldi áfram og starfsmönnum á flugvallarsvæðinu ætti því að fjölga sem nemur u.þ.b. mannaflaþörf álvers á næstu fjórum til fimm árum.
Hér að ofan voru talin upp hugsanleg ný störf á Suðurnesjum sem gróflega samsvara starfsmannafjölda u.þ.b. þriggja álvera. Þá eru ótalin svokölluð afleidd störf og störfin sem verða til ef félagið Suðurlindir virkjar til þess að byggja upp atvinnulíf í sveitarfélögunum sem að Suðurlindum standa þ.e. Vogum, Grindavík og Hafnarfirði. Þó sum þessara starfa séu ekki föst í hendi þá blasa tækifærin við og ekkert bendir til þess að kreppa sé framundan.
HÁLFVER Í HUGSÝN?
Í nóvember sendi Landvernd umhverfisráðherra kæru þar sem þess er krafist að framkvæmdin í heild sinni, þ.e. álver, orkuflutningar og virkjanir, verði metin í einu heildstæðu umhverfismati svo heildstæð mynd fáist af áhrifum verkefnisins. Ráðherra hefur tekið kæruna til efnislegrar meðferðar þrátt fyrir kröfur hagsmunaaðila um frávísun. Komist umhverfisráðherra að sömu niðurstöðu og Umhverfisstofnun gerir í umsögn sinni um kæruna er útlit fyrir að hugmyndir um álver í Helguvík séu komnar á byrjunarreit.
Markmiðið með stofnun Suðurlinda er að standa vörð um sameiginlega hagsmuni sveitarfélaganna og íbúa þeirra varðandi náttúruauðlindir í landi sveitarfélaganna við Trölladyngju, Sandfell og í Krísuvík m.a. mögulega nýtingu jarðvarma og eignar- og nýtingarrétt hvers sveitarfélags fyrir sig. Þar með lítur út fyrir að um 40% þeirrar orku sem Norðurál hefur horft til sé ekki lengur í boði fyrir álver í Helguvík. Landsvirkjun hefur lýst því yfir að ekki verði samið um orkusölu til nýrra álvera og að óreyndu tel ég útilokað að ný borgarstjórn lofi Orkuveitu Reykjavíkur hlaupa undir bagga með þau 200 MW, eða svo, sem uppá vantar. Sú orka sem Norðurál hefur aðgang að annar ekki álveri, og varla heldur hálfveri, sem nefna mætti 1. áfangann.
Þó orkan kunni að geta annað hálfveri þá er það varla nema í hugsýn því ekki er sátt um orkuflutningana sem til þarf. Sveitarfélögin hafa hvert á fætur öðru hafnað tillögum Landsnets um línuleiðir og á fjölmennum íbúafundi í Vogum lögðust íbúar einróma gegn háspennulínum í gegnum sveitarfélagið. Við þetta bætist að Norðuráli var hafnað um losunarheimildir enda er vandséð að álver í Helguvík samræmist markmiðum ríkisstjórnarinnar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.
Bergur Sigurðsson.
Þessi pistill birtist í Morgunblaðinu
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.