Efnahernaður og vopnaþróun á Gaza?

Eftir hörmungar helfararinnar sáu Sameinuðu þjóðirnar aumur á Guðs útvöldu þjóð og bjuggu henni skjól í Palestínu. Þeir sem fyrir voru máttu víkja fyrir voninni um að nú yrði heimurinn friðsamlegri. Vonin varð ekki að veruleika og hefur Ísraelsríki átt í illdeilum við heilan menningarheim allt frá stofnun ríkisins árið 1948. Þegar stofnendur ríkisins fengu sig á dögunum fullsadda og kröfðust vopnahlés skelltu Ísraelar við skollaeyrum og létu sprengjum rigna yfir Palestínu sem aldrei fyrr. Meðal vopna voru svokallaðar DIME-sprengjur, „Dense Inert Metal Explosives“. „Dense“ vísar til hárrar eðlisþyngdar og „Inert“ vísar til þess að málmurinn hvarfast ekki við sprenginguna eins og t.d. gerist í álduftssprengjum, þ.e. „thermobarric bombs“, þar sem afl sprengingarinnar á rætur að rekja til orkulosandi efnahvarfs þar sem ál oxast yfir í áloxíð, sem er öfugt ferli við það sem gerist við frumframleiðslu á áli. Þó málmurinn í DIME-sprengjum hvarfist ekki, þá veldur hann banvænum efnahvörfum í líkama þeirra sem fyrir honum verða þar sem hann skemmir frumur svo úr verður krabbamein.

Til þess að lágmarka viðbjóð stríðsreksturs hafa Sameinuðu þjóðirnar m.a. komið sér saman um reglur sem settar eru fram í Genfarsáttmálanum. Eitt af því sem þar kemur fram er að óheimilt er að nota sprengur sem særa með ögnum eða efnum sem ekki greinast með röntgen myndatöku. Þetta er meðal þeirra ákvæða sem brotið var á í ólöglegu innrásarstríði Ísraels. Það er með ólíkindum að ríki sem á tilveru sína Sameinuðu þjóðunum að þakka skuli komast upp með að hafa að engu samþykktir og fyrirmæli stofnenda sinna. Ísrael hefur í gegnum tíðina skákað í skjóli Bandaríkjanna sem hafa ítrekað á vettvangi Sameinuðu þjóðanna beitt sér til þess að verja hagsmuni og gjörðir Ísraela gagnvart nágrannaþjóðum sínum.

DIME-sprengjur eru sprengjur sem þróaðar voru af Bandaríkjaher, að sögn með það fyrir augum að sprengja voldug mannvirki og rammgerð hernaðartól. DIME-sprengjum var ætlað að vera arftakar úraníum sprengna, „Depleated Uranium bombs“. Eftir því sem ég best veit eru Ísraelar einir um að hafa notað DIME-sprengjur í hernaði og tímasetningin bendir til þess að sú notkun hafi verið hluti af þróun vopnsins, e.t.v. einhverskonar verktaka fyrir þá sem að þróun þeirra standa. DIME-sprengjur voru fyrst notaðar í árásunum á Gaza sumarið 2006 en þá voru þær enn á þróunarstigi og gerði bandaríkjaher á þeim tíma ráð fyrir að þær yrðu tilbúnar til notkunar árið 2008. Þrátt fyrir að hörmulegar afleiðingar þessara vopna hafi strax komið í ljós í þessum árásum var þeim enn á ný látið rigna yfir þéttbýlasta landsvæði heims. Norski læknirinn, Mads Gilbert, sem staðið hefur í ströngu á Gaza svæðinu, segist hafa fyrir því sannanir.

DIME-sprengjur gefa af sér gríðarlegt högg sem dofnar tiltölulega fljót, bara á fáeinum metrum. Þó höggið dofni fljótt fer innihaldið lengra. DIME-sprengjur innihalda öragnir, svo smáar að það kann að vera réttara að tala um ryk eða duft. Duftið er blanda sem samanstendur af þungum málmun, mestmegnis wolfram (tungstein) en auk þess nikkel og kóbalt. Vitað er að wolframduft er krabbameinsvaldandi. Er því eins víst að þeir sem lifa af sjálfa sprenginguna, en verða fyrir innihaldinu, hljóti á síðari stigum hægan dauðdaga. Sár þeirra sem verða fyrir DIME-sprengjum gróa illa og þó sýnileg sár á skinni kunni að vera smá getur málmurinn valdið banvænum skaða á innri líffærum. Þá er rétt að hafa hugfast að krabbameinsvaldandi málmduftið sem dreifist yfir svæðið er komið til að vera enda ekki hvarfgjarnir málmar, sbr. orðið „Inert“ í nafni sprengnanna.

Mikilvægt er að fram fari rannsóknir á framferði Ísraela á Gaza svæðinu og að hverskyns brot á Genfarsáttmálanum verði til lykta leidd. Það er algjörlega óþolandi hvernig herveldi á borð við Ísrael kemst upp með að fara sínu fram og hundsa tilmæli og sáttmála stofnenda sinna. Ábyrgð Sameinuðu þjóðanna er mikil og hana ber að axla.

Bergur Sigurðsson.

Þessi pistill birtist í Morgunblaðinu 23. janúar 2009.

 

Helstu heimildir:
Viðtal við dr. Mads Gilbert http://www.youtube.com/watch?v=ZVAVsvyrECs
The DIME Bomb: Yet another genotoxic weapon – James Brooks, Al-Jazeerah, desember 2006. http://usa.mediamonitors.net/content/view/full/38389
Dime bombs leave Israel's victims with mystery wounds, http://www.belfasttelegraph.co.uk/news/world-news/dime-bombs-leave-israels-victims-with-mystery-wounds-14145665.html

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband