Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Satt og logið um "græna" málminn

Því hefur lengi verið haldið fram af fjölmörgum aðilum að álframleiðsla á Íslandi sé af hinu góða í hnattrænu samhengi. Til rökstuðnings er sagt að annars yrði álið framleitt í löndum á borð við Kína þar sem kol eru notuð sem orkugjafar. Þessar fullyrðingar eru í besta falli hálfsannleikur en líklegra er að um vanþekkingu sé að ræða. Ítrekaðar fullyrðingar í þessum efnum hafa valdið útbreiddum misskilningi á meðal þjóðarinnar þess efnis að álframleiðsla á Íslandi sé jákvæð í hnattrænu samhengi.

Staðreyndin er sú að víða í heiminum er að finna báxítnámur, óvirkjað vatnsafl og hráefni í rafskaut á svipuðum slóðum. Til þess að framleiða 1 tonn af áli þarf 2 tonn af áloxíði og 0,5 tonn af rafskautum sem framleidd eru úr kolum og olíuefnum. Í hnattrænu samhengi er augljóslega vænlegra að frumframleiðsla á áli fari fram í heimshlutum þar sem hráefni og vatnsafl er til staðar og þannig komið í veg fyrir óþarfa flutning hráefna. Ekki er hér verið að leggja blessun yfir staðbundið og svæðisbundið rask sem aukin álframleiðsla á þessum slóðum myndi hafa heldur er einungis verið að horfa til hnattrænna áhrifa. Það má því setja dæmið upp á þann veg að framlag Íslands til þess að taka á þeirri vá sem mannkynið stendur frammi fyrir séu óþarfir flutningar hráefna frá löndum á borð við Jamaica, Indland og Ástralíu. Þeim óþörfu flutningum fylgir óhjákvæmilega óþörf losun gróðurhúsalofttegunda sem er „framlag“ Íslands til „lausnar“ þeim vanda sem gróðurhúsaáhrifin eru.

Því hefur verið haldið fram að valkosturinn við „íslenskt ál“ sé ál frá Kína þar sem kol eru notuð til raforkuframleiðslu. Þetta er afar langsótt röksemdafærsla. Það er rétt að í Kína eru notuð kol sem orkugjafi fyrir álver, en framleiðsla Kínverja fer, eftir því sem best verður að komist, ekki á sömu markaði og ál frá Íslandi. Kínverjar framleiða fyrir sinn heimamarkað og nota álið í fullunnar vörur af ýmsu tagi sem eftir atvikum eru fluttar til vesturlanda. Engin augljós tengsl virðast því vera á milli álframleiðslunnar á Íslandi og í Kína. Nærtækara væri að benda á valkosti í Mið- og Suður Ameríku, en sá samanburður er óhagstæður þeim sem halda fram ágæti framleiðslunnar á Íslandi. Þess má geta að skv. upplýsingum frá International Aluminum Institute framleiðir sá heimshluti umtalsvert magn að áli og orkugjafinn er fyrst og fremst vatnsafl. En hvers vegna er ál yfir höfuð framleitt á Íslandi þegar til eru lönd sem eiga vatnsafl, báxítnámur og ódýrt vinnuafl? Líklega er það ódýra orkan sem Ísland hefur að bjóða sem ríður baggamuninn. Alain Belda, forstjóri Alcoa, hefur t.d. sagt að orkuverð til stóriðju á Íslandi sé um helmingur þess orkuverðs sem Alcoa samdi um í tilteknu verkefni í Brasilíu.

ÍSLENSKA ÁKVÆÐIÐ
Með íslenska ákvæðinu er ríkjum með lítil hagkerfi og hreina orkugjafa gefin kostur á að ráðast í verkefni sem valda mikilli losun gróðurhúsalofttegunda án þess að losunin teljist með almennri losun í skuldbindingum Kyoto. Ein af megin forsendum ákvæðisins er að með því að nota hreina orku sé hnattrænt dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda. Með vísan í óþarfa flutninga sem fylgja álframleiðslu á Íslandi er ljóst að hún veldur meiri losun gróðurhúsalofttegunda en álframleiðsla í löndum sem geta numið báxít og vatnsafl auk olíu og kola til rafskautagerðar. Að nota íslenska ákvæðið í þágu áliðju á Íslandi er því óhagstætt í hnattrænu samhengi og uppfyllir ekki þá megin forsendu sem ákvæðið byggir á.

Ef ákvæðið væri hinsvegar nýtt í verkefni sem myndu raunverulega draga úr heildar losun gróðurhúsalofttegunda væru verkefnin jákvæð í hnattrænu samhengi. Sem dæmi um slík verkefni mætti t.d. nefna verkefni þar sem hrein orka væri notuð til þess að kæla tölvuver. Í því tilfelli eru „hráefnin“ tölvutæk gögn sem flutt eru á milli heimshluta án þess að því fylgi losun gróðurhúsalofttegunda. Fyrir þá starfsemi þarf heldur ekki háspennulínur því tölvuverin mætti staðsetja í sjálfum virkjunarhúsunum eða í næsta nágrenni við þau.

AÐ LOKUM
Rétt er að halda því til haga að til þess að endurvinna ál þarf aðeins 5% af orkunni sem þarf til frumframleiðslunnar. Um 20% af heimsframleiðslunni fara í umbúðir og má ætla að stórum hluta þeirra sé hent eftir notkun. Þannig er t.d. 800.000 tonnum af áldósum fargað árlega í Bandaríkjunum. Með aukinni endurvinnslu mætti því draga stórlega úr hnattrænum umhverfisáhrifum álframleiðslunnar.

Líklega verða þessi skrif mín ekki til þess að snúa þeim sem hvað harðast beita sér fyrir uppbyggingu áliðnaðar á Íslandi. Ég vonast þó til þess að skrifin verði til þess að sem flestir hætti að fara með öfugmæli um hnattrænt ágæti frumframleiðslu þessa „græna málms“ á Íslandi.

Bergur Sigurðsson,

Þessi pistill birtist í Morgunblaðinu 12.3.2007.


Efnahernaður og vopnaþróun á Gaza?

Eftir hörmungar helfararinnar sáu Sameinuðu þjóðirnar aumur á Guðs útvöldu þjóð og bjuggu henni skjól í Palestínu. Þeir sem fyrir voru máttu víkja fyrir voninni um að nú yrði heimurinn friðsamlegri. Vonin varð ekki að veruleika og hefur Ísraelsríki átt í illdeilum við heilan menningarheim allt frá stofnun ríkisins árið 1948. Þegar stofnendur ríkisins fengu sig á dögunum fullsadda og kröfðust vopnahlés skelltu Ísraelar við skollaeyrum og létu sprengjum rigna yfir Palestínu sem aldrei fyrr. Meðal vopna voru svokallaðar DIME-sprengjur, „Dense Inert Metal Explosives“. „Dense“ vísar til hárrar eðlisþyngdar og „Inert“ vísar til þess að málmurinn hvarfast ekki við sprenginguna eins og t.d. gerist í álduftssprengjum, þ.e. „thermobarric bombs“, þar sem afl sprengingarinnar á rætur að rekja til orkulosandi efnahvarfs þar sem ál oxast yfir í áloxíð, sem er öfugt ferli við það sem gerist við frumframleiðslu á áli. Þó málmurinn í DIME-sprengjum hvarfist ekki, þá veldur hann banvænum efnahvörfum í líkama þeirra sem fyrir honum verða þar sem hann skemmir frumur svo úr verður krabbamein.

Til þess að lágmarka viðbjóð stríðsreksturs hafa Sameinuðu þjóðirnar m.a. komið sér saman um reglur sem settar eru fram í Genfarsáttmálanum. Eitt af því sem þar kemur fram er að óheimilt er að nota sprengur sem særa með ögnum eða efnum sem ekki greinast með röntgen myndatöku. Þetta er meðal þeirra ákvæða sem brotið var á í ólöglegu innrásarstríði Ísraels. Það er með ólíkindum að ríki sem á tilveru sína Sameinuðu þjóðunum að þakka skuli komast upp með að hafa að engu samþykktir og fyrirmæli stofnenda sinna. Ísrael hefur í gegnum tíðina skákað í skjóli Bandaríkjanna sem hafa ítrekað á vettvangi Sameinuðu þjóðanna beitt sér til þess að verja hagsmuni og gjörðir Ísraela gagnvart nágrannaþjóðum sínum.

DIME-sprengjur eru sprengjur sem þróaðar voru af Bandaríkjaher, að sögn með það fyrir augum að sprengja voldug mannvirki og rammgerð hernaðartól. DIME-sprengjum var ætlað að vera arftakar úraníum sprengna, „Depleated Uranium bombs“. Eftir því sem ég best veit eru Ísraelar einir um að hafa notað DIME-sprengjur í hernaði og tímasetningin bendir til þess að sú notkun hafi verið hluti af þróun vopnsins, e.t.v. einhverskonar verktaka fyrir þá sem að þróun þeirra standa. DIME-sprengjur voru fyrst notaðar í árásunum á Gaza sumarið 2006 en þá voru þær enn á þróunarstigi og gerði bandaríkjaher á þeim tíma ráð fyrir að þær yrðu tilbúnar til notkunar árið 2008. Þrátt fyrir að hörmulegar afleiðingar þessara vopna hafi strax komið í ljós í þessum árásum var þeim enn á ný látið rigna yfir þéttbýlasta landsvæði heims. Norski læknirinn, Mads Gilbert, sem staðið hefur í ströngu á Gaza svæðinu, segist hafa fyrir því sannanir.

DIME-sprengjur gefa af sér gríðarlegt högg sem dofnar tiltölulega fljót, bara á fáeinum metrum. Þó höggið dofni fljótt fer innihaldið lengra. DIME-sprengjur innihalda öragnir, svo smáar að það kann að vera réttara að tala um ryk eða duft. Duftið er blanda sem samanstendur af þungum málmun, mestmegnis wolfram (tungstein) en auk þess nikkel og kóbalt. Vitað er að wolframduft er krabbameinsvaldandi. Er því eins víst að þeir sem lifa af sjálfa sprenginguna, en verða fyrir innihaldinu, hljóti á síðari stigum hægan dauðdaga. Sár þeirra sem verða fyrir DIME-sprengjum gróa illa og þó sýnileg sár á skinni kunni að vera smá getur málmurinn valdið banvænum skaða á innri líffærum. Þá er rétt að hafa hugfast að krabbameinsvaldandi málmduftið sem dreifist yfir svæðið er komið til að vera enda ekki hvarfgjarnir málmar, sbr. orðið „Inert“ í nafni sprengnanna.

Mikilvægt er að fram fari rannsóknir á framferði Ísraela á Gaza svæðinu og að hverskyns brot á Genfarsáttmálanum verði til lykta leidd. Það er algjörlega óþolandi hvernig herveldi á borð við Ísrael kemst upp með að fara sínu fram og hundsa tilmæli og sáttmála stofnenda sinna. Ábyrgð Sameinuðu þjóðanna er mikil og hana ber að axla.

Bergur Sigurðsson.

Þessi pistill birtist í Morgunblaðinu 23. janúar 2009.

 

Helstu heimildir:
Viðtal við dr. Mads Gilbert http://www.youtube.com/watch?v=ZVAVsvyrECs
The DIME Bomb: Yet another genotoxic weapon – James Brooks, Al-Jazeerah, desember 2006. http://usa.mediamonitors.net/content/view/full/38389
Dime bombs leave Israel's victims with mystery wounds, http://www.belfasttelegraph.co.uk/news/world-news/dime-bombs-leave-israels-victims-with-mystery-wounds-14145665.html

 


Smjör af hverju strái

 Það vekur undrun og furðu hvernig sjálfskipaðir talsmenn álvers í Helguvík halda kerfisbundið úti innistæðulausu vorkunarvæli um atvinnlíf á Suðurnesjum. Á Suðurnesjum, þar sem allt er í blóma, tækifærin blasa við og smjör drýpur af hverju strái. Lítið atvinnuleysi, þensla og mikill innflutningur á erlendu vinnuafli er einkennandi fyrir samfélagið í dag, jafnt á Suðurnesjum sem og á landinu í heild sinni. Til þess að sporna gegn því að þenslan sæki enn í sig veðrið valdi Seðlabankinn nýlega að lækka ekki stýrivexti.

Atvinnuleysi á Suðurnesjum er lítið, innan við 3%, en engu að síður er það meira en annarstaðar á landinu um þessar mundir. Það er þekkt staðreynd og viðurkennd að örri fólksfjölgun fylgir oft tímabundið atvinnuleysi sem skýrist af því að margir skipta um vinnu í kjölfar búferlaflutninga. Íbúum í Reykjanesbæ hefur fjölgað gríðarlega undanfarin misseri í kjölfar uppbygginar í Innri Njarðvík og eftir að varnarstöðinni var breytt í skólaþorp sem smám saman er að fyllast af íbúum. Ör fólksfjölgun á Suðurnesjum skýri væntanlega hluta af atvinnuleysinu en ekkert bendir hinsvegar til þess að um varanlegan vanda sé að ræða.

ÍGILDI ÞRIGGJA ÁLVERA
Í atvinnumálum á Suðurnesjum eru fjölmörg tækifæri framundan. Gert er ráð fyrir því að það þurfi um 200 manns til fjölbreyttra starfa þegar áformað hótel við Bláa lónið hefur verið byggt. Talverðan fjölda iðnaðarmanna þarf fyrst við bygginguna sjálfa. Nú stendur yfir umhverfismat fyrir kísilverksmiðju í Helguvík og þar er gert ráð fyrir u.þ.b. 90 störfum, auk starfa á byggingartima verksmiðjunnar. Þá er í gangi metnaðarfull uppbygging Keilis á Keflavíkurflugvelli og er áætlað að á næstu 3-5 árum muni þar verða til 4-5.000 manna háskólasamfélag. Ætla verður að það þurfi nokkur hundruð manns til þess að þjónusta þann byggðakjarna. Þá eru viðræður í gangi um netþjónabú á Keflavíkurflugvelli en þar yðru til 150 störf eða svo. Á undanförnum árum hafa orðið til 60-70 ný störf á ári í tengslum við flugþjónustuna á Keflavíkurflugvelli. Áætlanir gera ráð fyrir að sú þróun haldi áfram og starfsmönnum á flugvallarsvæðinu ætti því að fjölga sem nemur u.þ.b. mannaflaþörf álvers á næstu fjórum til fimm árum.

Hér að ofan voru talin upp hugsanleg ný störf á Suðurnesjum sem gróflega samsvara starfsmannafjölda u.þ.b. þriggja álvera. Þá eru ótalin svokölluð afleidd störf og störfin sem verða til ef félagið Suðurlindir virkjar til þess að byggja upp atvinnulíf í sveitarfélögunum sem að Suðurlindum standa þ.e. Vogum, Grindavík og Hafnarfirði. Þó sum þessara starfa séu ekki föst í hendi þá blasa tækifærin við og ekkert bendir til þess að kreppa sé framundan.

HÁLFVER Í HUGSÝN?
Í nóvember sendi Landvernd umhverfisráðherra kæru þar sem þess er krafist að framkvæmdin í heild sinni, þ.e. álver, orkuflutningar og virkjanir, verði metin í einu heildstæðu umhverfismati svo heildstæð mynd fáist af áhrifum verkefnisins. Ráðherra hefur tekið kæruna til efnislegrar meðferðar þrátt fyrir kröfur hagsmunaaðila um frávísun. Komist umhverfisráðherra að sömu niðurstöðu og Umhverfisstofnun gerir í umsögn sinni um kæruna er útlit fyrir að hugmyndir um álver í Helguvík séu komnar á byrjunarreit.

Markmiðið með stofnun Suðurlinda er „að standa vörð um sameiginlega hagsmuni sveitarfélaganna og íbúa þeirra varðandi náttúruauðlindir í landi sveitarfélaganna við Trölladyngju, Sandfell og í Krísuvík m.a. mögulega nýtingu jarðvarma og eignar- og nýtingarrétt hvers sveitarfélags fyrir sig“. Þar með lítur út fyrir að um 40% þeirrar orku sem Norðurál hefur horft til sé ekki lengur í boði fyrir álver í Helguvík. Landsvirkjun hefur lýst því yfir að ekki verði samið um orkusölu til nýrra álvera og að óreyndu tel ég útilokað að ný borgarstjórn lofi Orkuveitu Reykjavíkur hlaupa undir bagga með þau 200 MW, eða svo, sem uppá vantar. Sú orka sem Norðurál hefur aðgang að annar ekki álveri, og varla heldur „hálfveri“, sem nefna mætti 1. áfangann.

Þó orkan kunni að geta annað „hálfveri“ þá er það varla nema í hugsýn því ekki er sátt um orkuflutningana sem til þarf. Sveitarfélögin hafa hvert á fætur öðru hafnað tillögum Landsnets um línuleiðir og á fjölmennum íbúafundi í Vogum lögðust íbúar einróma gegn háspennulínum í gegnum sveitarfélagið. Við þetta bætist að Norðuráli var hafnað um losunarheimildir enda er vandséð að álver í Helguvík samræmist markmiðum ríkisstjórnarinnar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

Bergur Sigurðsson.

Þessi pistill birtist í Morgunblaðinu 


Lögleysa í Gjástykki?

Iðnaðarráðherra fyrrverandi, Jón Sigurðsson, veitti Landsvirkjun rannsóknaleyfi í Gjástykki tveim dögum fyrir kosningar og aðeins tveim dögum eftir að umsóknin barst ráðuneytinu. Lögmæti þessarar afgreiðslu sýnist mörgum hæpið þar sem í lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu segir: „Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar Orkustofnunar og umhverfisráðuneytis“. Í þessu tilfelli virðist það ekki hafa verið gert.

Af þessum sökum fóru Landvernd og SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, þess á leit við umhverfisnefnd og iðnaðarnefnd Alþingis að þær rannsaki leyfisveitinguna. Samtökin ætlast einnig til þess að iðnaðarráðherra afturkalli leyfið ef rannsóknin staðfestir ágalla á leyfisveitingunni.

Landsvirkjun og iðnaðarráðuneytið halda því fram að útgáfa leyfisins þann 10. maí 2007 hafi verið afgreiðsla á umsókn Landsvirkjunar frá því í október 2004 og benda á að leitað hafi verið umsagna um hana. Sú skýring verður að teljast afar langsótt þar sem leyfið sem veitt var 10. maí 2007 veitir víðtækari heimildir en sótt var um árið 2004. Leyfið veitir heimildir sem fyrst var sótt um 8. maí 2007.

UMSÓKN LANDSVIRKJUNAR 2004
Í umsókninni frá árinu 2004 segir: „Markmið Landsvirkjunar er að kanna með yfirborðsrannsóknum umfang og grunneiginleika jarðhitasvæðisins ... Eingöngu er um að ræða mælingar á yfirborði ... án framkvæmda er valdið gætu raski.“ Í þessari umsókn var ekki sótt um leyfi til þess að meta magn jarðhita eða afkastagetu svæðisins með rannsóknaborunum. Hinsvegar kemur fram í umsókninni að ef niðurstöður yfirborðsrannsókna verði jákvæðar muni Landsvirkjun; „síðar óska eftir sérstöku leyfi til frekari rannsókna, sem þá gætu m.a. falið í sér boranir.“

Um svipað leyti sóttu fleiri aðilar um rannsóknaleyfi í Gjástykki og úr varð að ekkert leyfi var veitt af hálfu iðnaðarráðuneytisins. Landsvirkjun gat þó ráðist í yfirborðsrannsóknir með leyfi landeiganda. Í september 2006 sendir Landsvirkun ráðuneytinu ítrekun á umsókn sinni frá 2004 og nefnir aftur að umsókn um rannsóknaboranir verði send síðar: „Á fyrri hluta árs 2007 stefna Þeistareykir ehf. og Landsvirkjun að því að sækja um ítarlegra rannsóknarleyfi á Gjástykkissvæðinu sem meðal annars felur í sér rannsóknarboranir eftir að yfirborðsrannsóknum lýkur....“

UMSAGNIR 2004
Stofnanir umhverfisráðuneytisins og Orkustofnun fjölluðu um umsókn Landsvirkjunar til fyrirhugaðra yfirborðsrannsókna. Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands segir m.a.: „Fram kemur í umsókn Landsvirkjunar að eingöngu sé um yfirborðsrannsóknir að ræða á þessu stigi sem hafi óverulegt rask í för með sér.“ Í umsögn Orkustofnunar segir m.a.: „Rannsóknir á þessum áfanga eru einvörðungu fyrirhugaðar sem yfirborðsrannsóknir og er því ekki að vænta neins teljanlega aukins usla eða rasks ... Viðeigandi rannsóknaráætlun er lögð fram í umsókninni, þar sem gert er einvörðungu ráð fyrir yfirborðsrannsóknum ... Jarðrask á að vera ekkert, eða hverfandi, ...“ Í umsögn Umhverfisstofnunar segir einnig: „Eftirfarandi yfirborðsrannsóknir verða framkvæmdar á þessu stigi: ...“

Eins og eðlilegt er og glögglega má hér sjá þá takmarkast hinar lögboðnu umsagnir við þær yfirborðsrannsóknir sem sótt var um af hálfu Landsvirkjunar.

MY UMSÓKN 8. MAÍ 2007
Fjórum dögum fyrir kosningar sendi Landsvirkjun iðnaðarráðuneytinu svo umsóknina sem minnst hafði verið á skriflega, bæði í umsókn frá árinu 2004 og aftur í ítrekuninni árið 2006. Í nýju umsókninni var sótt um leyfi til rannsókna á afkastagetu svæðisins. Til slíkra rannsókna þarf jarðboranir, stór borplön og eftir atvikum vegagerð. Ekki er þá lengur um yfirborðsrannsóknir að ræða eins og sótt var um leyfi til með umsókninni árið 2004. Í nýju umsókninni segir: „... stórauka þarf rannsóknir á Gjástykkissvæðinu með borun dýpri og víðari hola til að sannreyna niðurstöður yfirborðsrannsókna um tilvist jarðhitakerfisins og rannsaka eiginleika þess og afköst.“. Þessar óskir Landsvirkjunar um leyfi til rannsókna sem fela í sér yfirborðssrask eru þannig fyrst settar fram í umsókn þeirra þann 8. maí.

Þrátt fyrir að Orkustofnun og stofnanir umhverfisráðuneytisins hefðu tekið skýrt fram, árið 2004, að umsagnir þeirra væru aðeins um yfirborðsrannsóknir í Gjástykki þá leitaði iðnaðarráðuneytið ekki eftir nýjum umsögnum hjá þeim vegna þessarar nýju umsóknar. Þeim rannsóknum sem sótt var um fylgir umtalsvert umhverfisrask sem lögboðnir umsagnaraðilar fengu ekki færi á að tjá sig um áður en leyfið var gefið út. Þetta virðist brjóta í bága við 4. tl. 5. gr. laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, en þar segir; „Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar Orkustofnunar og umhverfisráðuneytis“. Lögmæti útgáfunnar er því ekki hafið yfir vafa og raunar virðist blasa við að ákvæði laganna hafi ekki verið uppfyllt af hálfu iðnaðarráðuneytisins

Bergur Sigurðsson.

Þessi pistill birtist í Morgunblaðinu 11.9.2007.


Orkuþörf stóriðjuáforma og biðlund skynseminnar

Flestum ætti að vera kunnugt að álfyrirtækin áforma umtalsverða uppbyggingu á suðvesturhorni landsins. Til þess að áætlanir þeirra geti gengið eftir þarf gríðarlegt viðbótarmagn af raforku. Áform um álver í Helguvík og stækkun í Straumsvík kalla á 8,2 TWst af raforku á ári en til viðmiðunar má benda á að heildar raforkunotkun á Íslandi í dag er um 8,6 TWst á ári. Þá er ótalin orkuþörf hugsanlegs álvers í Þorlákshöfn og rétt er að halda því til haga að einnig eru uppi áform um álver á Húsavík sem myndi þurfa um 3,8 TWst.

Orkuþörf stóriðjuáforma á suðvesturhorninu samsvarar fjórum nýjum vatnsaflsvirkjunum í Þjórsá, frá Búðarhálsi að Urriðafossi, og fimm til sjö nýjum jarðvarmavirkjunum á svæðinu frá Hengli og út á Reykjanes. Þrátt fyrir að rammaáætlun um verndun og nýtingu jarðvarma sé enn ólokið er horft til háhitasvæða eins og Seltúns og Austurengja í Krýsuvík, Trölladyngjusvæðisins austan Keilis. Einnig hefur verið horft til orkuöflunar í Brennisteinsfjöllum en nýlega lýsti Hitaveita Suðurnesja vilja sínum til þess að afturkalla umsókn sína um rannsóknarleyfi þar. Brennisteinsfjöllum er þó ekki borgið því Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun horfa enn til orkuöflunar þar. Það segir sig sjálft að þessi orkuöflun myndi valda stórkostlegu raski og fjölmargar háspennulínur myndu rísa á svæðum sem í dag eru án slíkra mannvirkja.

Djúpborun og skynsemi

Djúpborun hefur verið nokkuð til umræðu á undanförnum árum en með henni er ætlunin að bora dýpra niður á heitara vatn en gert er í dag. Nái djúpborunin fram að ganga gæti orkuvinnslugeta starfandi jarðvarmavirkjana e.t.v. fimmfaldast. Þannig mætti eftir atvikum auka orkuvinnslu starfandi jarðvarmavirkjana á suðvesturhorninu um 10 TWst eða svo án þess að virkja á nýjum svæðum með tilheyrandi umhverfisspjöllum, uppistöðulónum og nýjum línuleiðum. Til þess að svo megi verða þurfa orkufyrirtækin, álframleiðendur og yfirvöld til lands og sveita þó að gæta hófs og sýna biðlund.

Ef marka má ummæli Júlíusar Jónssonar, forstjóra Hitaveitu Suðurnesja, og Guðmundar Ó. Friðleifssonar, verkefnisstjóra djúpborunarverkefnisins, á fréttastöðinni NFS á síðasta ári má ætla að djúpborunarverkefnið kunni að skila af sér orku eftir 6 – 15 ár. Ótímabær uppbygging stóriðju mun hafa gríðarleg áhrif á samfélag, umhverfi og náttúru svæðisins um ókomin ár. Í því samhengi eru nokkur ár ekki langur tími en biðlund skynseminnar gæti bjargað mörgum af náttúruperlum landsmanna.

Bergur Sigurðsson.

Þessi pistill birtist í Morgunblaðinu 7. janúar 2007


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband